Inngangur   Prenta  Senda 
Sé gengið um varðaðan veg 

 

                Fram með slóðum fortíðarinnar hlóðust upp vörður kynslóða er á undan gengu. Í tímans rás má ætla að úr þeim hafi hrunið steinn og steinn. Nú á dögum kunna þær að líti illa út. Þær gætu sumar verið eins og óhrjálegir hraukar. Þær gætu einnig legið flatar og sumar eru aðeins steinar á stangli. Þrátt fyrir það, þarf geymd minninga sem þær standa fyrir, ekki að veraglataðar með öllu. Hver sá steinn er liggur í, eða við slóð tímans, var, er og verður áfram hluti sögunnar. Steinum má safna saman og hlaða vörður. Með natni má finna hverjum þeirra stað við hæfi. Þannig er hægt að varða hverja slóð upp á nýjan leik og gera ókomnum kynslóðum hægara um vik með að rata um slóðir fortíðar.

                Það er ærinn starfi að endurgera eina litla vörðui. Þar má nefnilega alls ekki vera svo að verki staðið að minnsta áreiti leggi hana flata á ný. Hver steinn þarf stuðning til að styðja annan stein.

Vera má að steinn og steinn sýnist týndur. Svo þarf ekki að vera. Þeir gætu hafa runnið út af slóðinni.  Gras eða annar gróandi getur hulið þá. Oft þarf aðeins að þreyfa um gróandann. Stundum sparka niður fæti, stinga niður skóflu eða jafnvel beita járnkarli. Hver veit? Það er alls ekki útilokað að utan vegar kunna að leynast tíndir steinar og kannski finnast þeir aðeins í litlum brotum. Steinar úr einstaka vörðu geta jafnvel legið sem veggjabrot í óra fjarlægð frá uppruna sínum.  

                Hver einstakur maður á sér foreldra og þarf þá ávalt tvennt til, föður og móður. Oftast, allavega nú á dögum, er það nú svo að menn vita hverjir foreldrar sínir eru, er það ekki? Þeir vita jafnvel deili á afa og ömmu og stundum á langafa og langömmu. En hvað svo? Já, hvað svo? Þegar lengra dregur til fortíðar, fer ættrakning framætta oft að skarðast. Það koma fram eyður. Einn og einn forfaðir kemur ekki fram, hann hefur gleymst og það finnast ekki tengsl lengra aftur. Nöfn geta brenglast í munnlegri geymd og í fljótu bragði virðist allt vera glatað. Þetta þarf samt alls ekki að vera svona slæm.

Íslendingar hafa verið mjög duglegir við að skrá niður ýmis atriði í samskiptum sínum. Saga af manni eða málefnum sem gerðust á vesturlandi, getur legið í skjölum eða skráðum sögum á austurlandi o.s.frv. Svör við ótal mörgum spurningum kunna að finnast á ólíklegustu stöðum. Þau geta legið niður grafin einhversstaðar og komið svo upp á yfirborðið þegar minnst varir. Mikið er til af því er virðist ómerkilegum skjölum frá liðnum tíma á söfnum víða um land. Það þarf oft ekki annað en fletta í nokkrum slíkum eða einhverjum gömlum skræðum á almennum bókasöfnum til að komast á bragðigð. Fyrst að finna eitt atriði sem oftar en ekki vísar svo á annað. Svörin kunna að liggja í skjölum samtíðarmanna þess viðfangsefnis sem fjallað er um. Oft í gögnum presta, kaupmanna, lækna og slíkra lærðra manna. Þeir fluttust oftsinnis búferlum milli héraða, jafnvel landa á milli, starfs síns vegna. Þá höfðu þeir við vistaskiptin meðferðis ritaðar skýrslur um menn og málefni.

                Áræði og elja, ásamt nokkrum öðrum góðum kostum, geta leitt af sér stórkostlegn ávöxt. Hann getur orðið miklu stærri og meira en nokkurn kann að órað fyrir. Það sem hér fer á eftir er aðeins vísir að viðleitni.  Viðleitni til þess að hressa ögn upp á nokkrar nærtækar vörður við slóðir forfeðra minna.   


Um Diego.is Ættartré Myndir Hafa samband