„Diego“
Ég hef fyrir satt að föðurafi minn hafi alla tíð gengist við nafninu Hjálmar Jónsson og sjálfur ritað það aðeins þannig. Það hafi hinsvegar verið annara manna verk að kalla hann Hjálmar Diego og rita nafn hans þannig. Hjálmar var fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð 26. febrúar 1891, dáinn 15. september 1970. Hann var sonur Ingibjargar Bjarnadóttur verkakonu á Þingeyri, f. 20. júní , dáin á heimili sonar síns á Steinhólum í Reykjavík 10. desember 1938. Í skírnarskrá í prestabók Sandakirkju í Dýrafirði segir Ingibjörg aðeins um föður Hjálmars, að hann sé amerískur sjómaður. Síðar gefur hún upp að hann heiti John Baptiste Duguo. John þessi var skipstjóra skonnortunnar Concord frá Gloucester í Massachusettsfylki í Bandaríkjunum. John Baptiste var fæddur 25. september 1840 í bænum Arichad á Madam-eyju við Cape Breton í Nowa Scotia, Kanada. Hann andaðist á heimili sínu, Friendstreet 19 í Glouchester Massachusetts USA þann 10. júlí 1910.
„Diego“ „Duguo“
Já! Nú kann einhver að spurja: „Af hverju Diego en ekki Duguo?“ Þetta er vandráðið. Flestir hlutir eiga sér þó einhverjar skýringar. Diego er vissulega „latin-nafn“, algengt á Spáni og í Mið- og Suður-Ameríku. Diego er þó nær aldrei í þessum löndum notað sem eftirnafn sakir merkingar sinnar í spænsku tungumáli. Þar merkir Diego nefnilega „drengur, strákur eða -hnokki, -stráklingur“. Engar stúlkur bera þetta nafn, ekki einusinni sem millinafn. Þess má þó geta að til eru örfáar undantekningar um að Diego sé notað sem eftirnafn, en þá eiga þær við um einstaklinga, en ekki heilar fjölskyldur. Fornafnið Diego er einnig til víðar en tengist þó oftast fólki að spænskum uppruna. Því er samt ekki til að dreyfa hér.
Svo hvaðan er Diego nafnið komið?
Fyrir því hef ég enga fullvissu, aðeins getgátur sem ég reyni að styðja með heimildum og persónulegum rökum. Faðir Hjálmars, John Baptiste var ekki af spænskum ættum. Forfeður hans voru komnir af frönsku landnemunum sem voru á meðal fyrstu Evrópumannanna sem settust að í Norður-Ameríku rétt um 1600. Sá forfaðir hét Abraham Dugas og kom frá Toulouse í Frakklandi. Hjálmar er 9. ættliður, kominn í beinan karllegg frá þessum Abraham Dugas, en hann var fæddur 1618, eða þar um bil. Bíddu nú við, kann einhver að segja. Þarna er kominn „Dugas“ en ekki Duguo eða Diego? Hvað er að gerast?
„Diego“ „Duguo“ „Dugas“
Þetta voru bara grunn upplýsingar, settar fram til að styðja málið og þá aðallega mín persónuleg túlkun. Í ransóknum mínum hef ég nefnilega rekist á margar útfærslur á eftirnafni John Baptiste. Fyrir það fyrsta var hann skírður upp á frönsku „Jean Baptiste Dugas“ í fæðingarbæ sínum á Nowa Scotia. Það breytist svo þegar hann flytur ungur sjómaður til hafnarborgarinnar Gloucester í Bandaríkjunum 1856. Þar eru fyrir menn af ýmsum þjóðernum og talar hver sína tungu. Snarlega breytist fornafn hans í John, algengt nafn upp á enska tungu, enda er allur sá fjölþjóðalýður sem þarna er saman kominn, mest nýir innflytjendur, að reyna að sanna sig sem gegna ameríska borgara. Allflestir eru að sækjast eftir ríkisfangi og er stór þáttur í þeirri baráttu að skilja og geta gert sig skiljanlegan á ríkjandi tungu, ensku. Millinafnið dettur út í almennu tali. Eftir stendur eftirnafnið.
Dugas er franskt nafn og fellur ekki endilega vel að þeirri tungu sem enskan er. Ýmsar útfærslur koma upp á yfirborðið. „Dago“ var ein þeirra og hélt um skeið. Það var hinsvegar um það leiti sem hann var að fá ríkisborgararéttinn að það breytist endanlega í Duguo og er til skondin saga sem styður tilurð þess (sjá annarsstaðar). Skýringu á því má finna í bók minni "Undir miðnætursól"
„Diego“ já!
Jú. Hjálmar Jónsson frá Nýjabæ í Dýrafirði er orðinn ráðsettur maður. Hann hafði lokið námi í bakaraiðn hjá Finni frænda sínum Þorsteinssyni á Ísafirði. Finnur rak einnig um tíma bakarí á Þingeyri og Suðureyri og gekk Hjálmar þá erinda í bakaríin á víxl. Á ferðum sínum milli staða kynnist hann og gengur síðar að eiga Halldóru Friðgerði Sigurðardóttur, sem þá bjó í föðurhúsum í Bolungarvík. Hún var fædd á Steinhólum í Grunnavík 16. maí 1893, dáin í Reykjavík 27. janúar 1951. Árið 1913 eignast þau Halldóra og Hjálmar frumburð sinn. Var hann skírður Friðrik Aðalsteinn Diggo. 31. maí 1916 fæðist þeim annar sonur. Er sá skírður Þorkell Guðmunds Diggó. „Diggó“ Af hverju Diggo eða Diggó? Rithátturinn skiptir ekki máli. Það er hljómfallið sem vekur athygli. Þegar sagt er diggó á íslensku og á íslenskan framburðarmáta hljómar það næstum alveg eins og duguo á frönsku með frönskum áherslum. Íslenskan með aðaláhersluna á fyrsta atkvæði jafnar upp áhersluna á annað atkvæði í frönskum framburði. Franska forskeytið du- er nær hljómlaust þegar áherslan kemur á –guo. Á sama hátt fellur áherslan af di- þegar tvöfaldur samhljði kemur á eftir, -ggo. O á frönsku hljómar eins og ó á íslensku. Þetta er einföld og vel skiljanleg hljóðvilla. Lái ég ekki langömmu minni þó hún hafi í mæltu máli talað upp á íslenskan máta og sagt barnsföður sinn heita Diggó. En „Diego“? Á vegi mínum við heimildaöflun hef ég enn ekki fundið neina einhlýta skýringu á tilurð Diego ritháttarins. Mig langar samt að leggja upp með dálitla sögusögn. Hvaðan hún kemur segi ég ekkert að svo komnu. Hinsvegar hefur saga þessi lagst svo þungt á mig við leytina að hinu sanna að hún gæti allt eins verið hinn hreini sannleikur. Friðrik Aðalsteinn, föðurbróðir minn og elstur þeirra systkina, skírður Diggo, gekk menntaveginn. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík um 1933 eða þar um bil. Hann kynntist á þessum árum verðandi eiginkonu sinni Svanfrid Auði, dóttur Helga Valtýssonar kennara og rithöfundar. Einhverju sinni þegar þeir Helgi og Friðrik áttu á tal saman um ætterni, bar eftirnafn þess síðarnefnda á góma. Fannst Helga nokkuð undarlegt að nafnið væri ritað með þessum hætti; Diggo, þegar víst væri að eftirnafnið bæri hann eftir afa sínum. Vitnaði hann til hins fengsæla ameríska skútuskipstjóra sem fyrstur fann Halamiðin út af vestfjörðum. Þessi mið eru merkt á dönsku herforingjakortunum og heita þar„Diego bank“. Fljótlega eftir þetta byrjar Friðrik manna fyrstur (að ég held) að rita nafn sitt með þessum nýja rithætti. Aðrir í fjölskyldunni komu svo þar á eftir og ýmist skírðu eða yfirfærðu Diego nafnið yfir á sig og börn sín. Átti það jafnt við, hvort heldur var um stúlkur eða drengi að ræða. Gunnar M. Magnússon rithöfundur var samtímamaður og góður félagi Hjálmars afa míns. Í einni bóka sinna segir hann af ferðalagi þeirra félaga yfir Grárófu árið 1908. Þar nefnir Gunnar afa minn Diego. Þetta kom mér til að halda að e.t.v. hafi Hjálmar afi sjálfur tekið upp að kalla sig Diego. En svo var ekki því bók Gunnars var ekki rituð fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar. Þá eru liðin meir en þrjátíu ár frá því Friðrik hóf að nota Diego nafið og fjölmargir afkomenda hans og systkina hans hafa verið skírð nafninu og önnur hafa tekið notkun þess upp. Aðrar betri skýringar hef ég enn ekki fundið. Hafi einhver eitthvað betra fram að færa, þá skal ég vera fljótur til að taka nýum ábendingum og gera þeim verðug skil hér á heimasíðunni. Hér annarsstaðar á síðunni verður farið út í frekari pælingar og eitt og annað upplýst eða um það spurt. /jd. |