Kynning   Prenta  Senda 

            Það sem hér fer á eftir er að mestu unnið upp úr „Espólín” -safni mínu. Espólín er íslenskt tölvuforrit sem tengir saman nafnaskrár. Það byggir á því að tengja saman einstaklinga; maka, sambýlisfólk, foreldra og börn. Þá tengjast systkin sjálfkrafa um foreldri og þannig koll af kolli. Úr verður heilstætt net sem hægt er að rekja fram og til baka, út og suður. 

            Eftir að „Íslendingabók” var opnuð á veraldarvefnum hefur einstaklingum gefist kostur á að fletta upp á sínum nánustu. Dreg ég enga dul á að þar er á ferðinni skemmtileg heimasíða. Að grunni til er hún byggð upp á sömu forsemdum og Espólín, sýnist mér, en á myndrænan hátt er hún sett fram með talsvert öðrum hætti. Hún ber lykilaðgang og hún er með takmörkunum sem loka á að hægt sé að rekja aðra en allra nánustu ættingja hvers lykilhafa.

            Talsverð brögð voru að því til að byrja með, að fram komi einhverjar staðreyndavillur um einstaklinga í Íslendingabók. Þær er auðvelt að fá leiðréttar. Óyggjandi rök þarf þá leggja fram til að byggja nýjar upplýsingar á. Eins og flestum Grunnvíkingum er kunnugt, þá brunnu kirkjubækur Staðasóknar, þegar íbúðarhúsið á Stað varð eldi að bráð. Það var sár missir; „nokkrir veigamiklir steinar úr vörðum genginna Grunnvíkinga hafa glatast. Engu að síður hefur tekist að reysa margar þeirra sæmilega vel við með skyldum brotum úr ýmsum áttum“. Margt er að finna í jarðaskilabókum, hreppsbókum, manntölum, sýslubókum, verslunarbókum og skjölum er greina frá ýmsum samskiptum manna í milli. Þessháttar gögn lyggja víða fyrir í skjalageymslum og söfnum og þarf oft að kafa djúpt. Uppskeran er yfirleitt alltaf alls þess umstangs verðug þegar upp er staðið, jafnvel þó oft beri maður ekki mikið úr bítum hverju sinni. 

            Þær línur sem hér fóru á undan eru aðeins persónulegar hugleiðingar. Hinsvegar vona ég að hver sá sem ber þær augum, taki þær til sín og hugleiði fyrir sig og túlki merkingu þeirra. Ég persónulega fyllist ríku stolti þegar ég segi að ég sé „Grunnvíkingur” í báðar ættir. Móðurafi minn, Vilhjálmur Jónsson bæjapóstur, er lengi bjó á Sigurhæð á Ísafirði, var borinn og barnfæddur í Kjós í Grunnavík. Þá var föðuramma mín, Halldóra Friðgerður Sigurðardóttir, fædd á Steinhólum á Höfðaströnd. Þau voru náskyld, því mæður þeirra voru systu. Þessum upplýsingum var ekki rétt skipað í Íslendingabók og má segja að sú villa er þar kom fram hafi att mér af stað við að draga saman niðjatal það sem hér fer á eftir. Vissulega vantar töluvert á að það sé fullhlýtandi og seint verður það fullkomið. Í því leynast eflaust margar villur, sem allar má laga í fyllingu tímans. Margar eru ekki á mínu færi að sjá við og ráða bót á óstuddur, en þá er komið að þér.

            Ættingi góður. Þessi „kjóri” minn er alls ekki heilagur. Hann er til gamans gerður fyrir hvern sem er, mig og þá sem hér eru nefndir. Hann þarf samt að yfirfara svo á öllu séu gerð sem best skyl. Þætti mér nú vænt um, ef þú renndir hann augum fyrir mig og leiðréttir það sem næst þér er og þú telur rangt eða á vanta. Einnig þætti mér vænt um allar viðbætur; einstaklinga fædda erlendis sem ekki komast í Íslendingabók, foreldri sem ekki tengjast af einhverjum sökum o.s.frv. Víða voru alin upp fósturbörn o. s. frv. Tel ég ekkert því til foráttu eða fyrirstöðu að þau séu rakin með, líkt og ég geri með fósturbörn Halldóru og Hjálmars á Steinhólum. Allar hugmyndir um enn frekari útvíkkun og útfærslur eru vel þegnar. Ég er þegar með nokkrar aðrar afkomendaskrár í smíðum; hliðar ættir er tengjasst þessu niðjatali og mægðum við það.  Samhliða vinn ég að framættaskrám sem niðjatölunum tengjast. Þá er ég að safna frásögnum af mönnum og málefnum, einkum munnmælum, sögum í munnlegri geymd. Þætti mér afar vænt um allar ábendingar varðandi þessháttar efni eða þá er kunna að lúra á slíku efni. Já, allt er varða má jafnt lifendur sem og liðna einstaklinga er tengjast þessu niðjatali. 

            „Sé gengið um varðaðan veg” er fyrirsögn sem mér finnst höfða til flestra verkefna minna af þessum toga. Ég hef nú þegar gefið út á prenti sýnishorn af afkomendaskrá föðurömmu minnar, Ingibjargar Bjarnadóttur í Nýjabæ á Þingeyri og heimildatengdri frásögn um lífshlaup hennar. Hún bar einnig þessa sömu fyrirsögn. Hér hef ég svo bætt við raðtölu með rómversku stöfum, en hún er alveg merkingarlaus, aðeins aðgreining í tölvuskrá fyrir mig.

            Hafið góða skemmtun við lesturinn og fyrir alla muni: „LÁTIÐ HEYRA FRÁ YKKUR”

Jóhann Pétur Diego Arnórsson

Krossalind 9

201 Kópavogur

564 5965 899 6771  

diego@diego.is

 


Um Diego.is Ættartré Myndir Hafa samband